top of page
Together at the Top

Faghandleiðsla

"Handleiðsla er aðferð sem styður við lærdóms og þroskaferli fagaðila, í einstaklings viðtali eða hóp, þar sem handleiðsluþegi fær rými til ígrundunar til þess að þróa og nýta betur hæfni sína í starfi. Handleiðsla starfsmanna tryggir gæði þjónustunnar og eflir notkun gagnreyndra aðferða í stað tilfinningasemi, hún er forvörn gegn kulnun og hjálpar handleiðsluþegum að greina á milli einkasjálfs og fagsjálfs." - Handleiðslufélag Íslands (Handís).

Faghandleiðsla (e. professional supervision)

Handleiðslan er ætluð fagfólki og öðrum sem þurfa á faglegri handleiðslu að halda. Nálgun í þjónustu byggir á sannreyndri þekkingu innan handleiðslufræða þar sem beitt er handleiðslulíkönum og viðeigandi kenningum til auka fagmennsku, vellíðan og færni í starfi. Ekki er þörf á að leita til faghandleiðara með sömu grunnmenntun þar sem handleiðslufræðin gera faghandleiðara kleift að mæta ólíkum faghópum og þjónustuúrræðum. Við val á handleiðara er gott að kanna hvort viðkomandi fagaðili hafi lokið viðbótardiplómunámi í handleiðslufræðum á meistarastigi við Háskóla Íslands eða sambærilegt nám erlendis til að tryggja gæði og árangur í handleiðslusambandinu.

Guðrún hefur verið að handleiða fjölbreyttan hóp fagfólks á meðan og eftir að hún lauk diplómunámi í handleiðslufræðum á meistarastigi við Háskóla Íslands sem hefur gefið henni innsýn í störf ólíkra faghópa samhliða fjölbreyttri starfsreynslu í hlutverki stjórnanda faghópa og þátttakanda í þverfaglegum teymum innan velferðar- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi og erlendis.

 

Guðrún hefur starfað við nýsköpun og þróunarstarf, verkefnastjórnun, kennslu, endurhæfingu, starfsendurhæfingu, stýrt þverfaglegum teymum og verið verkefnastjóri og deildarstjóri innan opinberrar þjónustu og einkaþjónustu fyrir börn, unglinga, fullorðna og aldraða sem hefur veitt henni innsýn, þekkingu og reynslu innan ólíkra skipulagsheilda, vinnustaðamenningar og reksturs. 

 

Hún hefur setið í fagráði Alzheimersamtakanna, gæða- og þróunarhóp með stjórn Sjómannadagsráðs og Hrafnistu, stjórn Iðjuþjálfafélags Íslands og situr nú í stjórn Vinnuvistfræðifélag Íslands (Vinnís) og varamaður í stjórn Handleiðslufélags Íslands (Handís). Þátttaka og störf hennar í slíkum ráðum og hópum hafa það markmið að stuðla að bættu vinnuumhverfi, heilsu, fagmennsku, vinnuvernd og góðri líkamsbeitingu.

 

Guðrún býður upp á faghandleiðslu og ráðgjöf fyrir einstaklinga og faghópa tengt m.a. stjórnun, endurhæfingu, teymisvinnu, meðferðarstarfi, kennslu og starfsþróun. Unnið er að því að styðja og styrkja trú á eigin getu, faglegt starf, starfsþróun og jafnvægi milli vinnu og einkalífs með virðingu, fagmennsku og vellíðan að leiðarljósi, sem eru gildi Heimastyrks.

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

Iðjuþjálfi og faghandleiðari

 

Starfsstofur

Lífsgæðasetrið St. Jó, Suðurgata 41 í Hafnarfirði

Heilsuklasinn, Bíldshöfða 9 í Reykjavík

Þjónusta inn á vinnustöðum eftir þörfum

Fjarþjónusta á skjá með leyfi Embætti landlæknis

bottom of page