Virðing, fagmennska og vellíðan

Heimastyrkur hefur það markmið að styðja og styrkja einstaklinga til meiri vellíðan, trú á eigin getu og bjargráða gegnum iðju og þátttöku.

Heimastyrkur býður upp á ráðgjöf, þjálfun og fræðslu fyrir einstaklinga á öllum aldri, fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og stofnanir. Þar starfar Guðrún Jóhanna iðjuþjálfi sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu innan félags- og heilbrigðisþjónustu sem og viðskipta.

Þjónusta og ráðgjöf iðjuþjálfa fer ýmist fram í Heilsuklasanum Bíldshöfða 9, 110 Reykjavík, inn á heimilum einstaklinga eða í því umhverfi sem óskað er eftir s.s. vinnustað, skóla, utandyra eða annað. Einnig er boðið upp á fjarheilbrigðisþjónustu fyrir þá sem eru búsettir út á landi.

Tímapantanir fara fram í síma 848-6509 eða á netfanginu gudrun@heimastyrkur.is

Athugið, það þarf ekki tilvísun frá lækni til að panta tíma hjá Guðrúnu Jóhönnu iðjuþjálfa.

Hægt er að sækja um styrk hjá mörgum stéttarfélögum til að koma til móts við greiðslur fyrir m.a. þjónustu iðjuþjálfa.

 

Þjónusta á vegum Heimastyrks

 • Mat, ráðgjöf, þjónusta og þjálfun.

 • Heimilisathugun og í nærumhverfi heimilis til að tryggja öryggi og auka sjálfsbjargargetu.

 • Vinnustaðaathugun og -úttekt, mat á umhverfisþáttum á vinnustað (starfsumhverfi), fræðsla og ráðgjöf.

 • Skólaathugun til að stuðla að meiri vellíðan og þátttöku barna í skólaumhverfinu.

 • Stuðningur við skipulag í daglegu lífi með tilliti til orkustjórnunar, getu og jafnvægis í daglegu lífi.

 • Ráðgjöf og aðstoð við val á hjálpartækjum og velferðartækni innan heimilisins, utan heimilisins og tengt bílamálum þegar færni við akstur er skert vegna hreyfihömlunar.

 • Ökumat og ráðgjöf í samstarfi við löggilta ökukennara t.d. eftir slys, í kjölfar minnkandi færni, fyrir þá sem eru komnir yfir sjötugt og þegar þörf er á akstursmati frá heilbrigðisstarfsmanni.

 • Mat á skynúrvinnslu, ráðgjöf og þjálfun. Mikilvægt er að skoða hvernig viðbrögð okkar eru gagnvart miklu áreiti, áferð, hljóðum, birtu og bragði og hvort okkur líði betur og eigum meiri orku ef við breytum ákveðnum þáttum sem hafa áhrif á okkur.

 • Ráðgjöf og þjálfun tengt skertri hreyfigetu og litlu úthaldi út frá sýn jafnvægis í daglegu lífi.

 • Mat á færni í öxlum og höndum ásamt sérhæfðri handaþjálfun, fín-/grófhreyfingar og samhæfing.

 • Ráðgjöf og aðstoð við hönnun á aðgengislausnum og breytingar á umhverfi út frá aðgengi fyrir alla í samstarfi við ólíka aðila t.d. arkitekta og byggingaraðila.

 • Þjónusta og ráðgjöf tengt stoðkerfisvanda t.d. gigt og verkir þar sem boðið er upp á hita eða paraffin vax, djúpslökun, fræðslu og þjónustu til að einfalda hversdaginn og mikilvæga iðju.

 • Þjónusta og ráðgjöf sem hvetur til jákvæðrar sjálfsmyndar, félagslegrar þátttöku og dregur úr vanlíðan gegnum viðurkennd matstæki, hugmyndafræði og markmiðasetningu.

 • Boðið er upp á fjarheilbrigðisþjónustu gegnum Kara Connect með samþykki Embætti landlæknis.

 • Ráðgjöf tengt þróun á þjónustu fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök.

 • Fræðsla, fyrirlestrar og kennsla tengt t.d. markmiðasetningu, tímastjórnun, tengslamyndun, sjálfsmynd og öldrun.

Það er mikilvægt að leita sér aðstoðar þegar við upplifum iðjuvanda sem eru farnir að hafa áhrif á daglegt líf okkar og líðan. Oft má finna persónumiðaðar lausnir í umhverfinu okkar, á vinnustaðnum eða innra með okkur sjálfum sem leysa vandann ef við erum meðvituð um hvað það er sem hefur áhrif á líðan okkar, líf og iðju. 

Umsagnir

"Leiðir okkar Guðrúnar lágu saman þegar ég var 19 ára. Ég hafði verið í miklu andlegu basli sem endaði á að ég fór í endurhæfingu hjá Virk. Í gegnum það úrræði hitti ég Guðrúnu Jóhönnu, þvílíkt sem það breytti mínu lífi til hins betra. Ég fékk starfsprófunarsamning hjá henni sem síðar leiddi til áframhaldandi ráðningar. Ég er handviss um að ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag ef ég hefði ekki fengið það tækifæri. Hún hvatti mig einnig til að fara í nám, sem ég gerði en lauk því ekki á þeim tíma reyndar. Ég er núna í námi og heyri reglulega í hausnum á mér hvatningar orð hennar þegar mig langar að gefast upp. Guðrún er einstaklega hvetjandi og leggur sig fram við að ná því besta fram í fólki og fá fólk til að trúa á sjálft sig og vilja virkilega ná árangri."

~ Kristín

"Ég þurfti hjálp við umsókn um óhefðbundið hjálpartæki og hafði samband við Guðrúnu Jóhönnu hjá Heimastyrk. Hún var snögg að setja sig inn í málin og gekk mjög ákveðin til verksins. Ég fann að það væri henni metnaðarmál að koma með jákvæða lausn sem hentaði mínum aðstæðum. Hún hefur reynst mér mjög vel og mun ég klárlega leita til hennar aftur þegar ég verð í þeirri stöðu að þurfa frekari hjálp og stuðning. En vegna sjúkdóms míns er það bara spurning hvenær en ekki hvort að ég þurfi frekari þjónustu frá iðjuþjálfa."

~ Snorri Már

"Leitaði til Guðrúnar vegna dóttur minnar 16 ára. Hún hafði verið að kljást við mikinn kvíða og þurfti að efla sjálfstraustið. Guðrún náði einstaklega vel til hennar, úrræðagóð, lausnamiðuð og efldi hana á allan hátt. Hjálpaði henni á mjög erfiðum tíma i hennar lífi. Við mæðgur getum heils hugar mælt með þjónustu Guðrúnar. Fagmaður fram i fingurgóma jákvæð og styrkjandi."

~ Móðir unglingsstúlku

"Það var óvænt gleði að sjá hvað vinnubrögðin voru vönduð og allt fagmannlega gert. Ekki má gleyma frábæru viðmóti Guðrúnar Jóhönnu."

~ Kona á aldrinum 51-70 ára

"Kæra Guðrún. Þú hjálpaðir mér mikið og ég mun áfram nýta mér æfingaprógrammið (fyrir axlir og hendur) frá þér og góðu leiðbeiningarnar. Kærar þakkir fyrir alla hjálpina og ánægjulega viðkynningu."

~ Kona á aldrinum 81-90 ára

"Ég kynnist Guðrúnu Jóhönnu þegar hún styður mig með ráðningu í hlutastarf haustið 2014. Á þeim tíma var ég búin að gefast upp á að geta nokkurn tímann fengið vinnu eða orðið nokkuð. Starfið var reyndar bara tímabundið, í rúmt ár, sem var fullkomið fyrir mig því ég var ekki tilbúin í hærra starfshlutfall. Yngsta barnið mitt var þá tæplega 16 mánaða. Meðgangan og fæðingin hafði verið mjög erfið og ég endað í sjúkraþjálfun og endurhæfingu í kjölfarið, sem hafði litlu skilað fyrir mig. Ég var hreinlega á mörkum þess að enda á örorku og var, í fullri hreinskilni sagt, bara til í það. Guðrún Jóhanna tók ákvörðun að bjóða mér starf á þessum tíma og var það mín lukka í lífinu.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því strax hversu heppin ég var að lenda á þessum stað á þessu augnabliki í lífi mínu. En hún studdi mig úr mikilli vanlíðan og vonleysi yfir í virka og metnaðarfulla manneskju. Þetta gerði hún faglega og án þess að ég væri í rauninni meðvituð um það í upphafi. Í hvert sinn sem ég var búin að koma mér fyrir í starfinu, búin að ná utan um verk- og vinnulag, þá bætti hún við mig verkefni. Ég man að þetta pirraði mig stundum en á sama tíma vildi ég sanna mig og standa undir væntingum sem ég upplifði að gerðar væru til mín. Eftir á sá ég hvað hún var að gera. Hún var að auka andlegt þol mitt og þroska hæfni mína í starfi með styðjandi hætti, og ég fann hversu ofboðslega gott þetta gerði mér. Samskiptin okkar voru alltaf góð, hreinskilin og heiðarleg, hvort sem allt gekk vel eða ef það þurfti að bæta eitthvað. Hún mætti mér alltaf með kurteisi, kærleika og væntumþykju. Greinilega með velferð mína að leiðarljósi. 

Þegar tímabundnu ráðningunni lauk þurfti ég að finna mér nýtt starf og hef síðan þá bara haldið áfram að vaxa, dafna og ná frama í lífi og starfi. Ég hef oft haldið því fram að Guðrún Jóhanna hafi bjargað líðan minni og lífi á þessum tímapunkti, og ég áttaði mig ekki einu sinni á því fyrr en eftir á. Hef ég stundum sagt að að hún hafi (iðju)þjálfað mig til lífs."

~ Rannveig Ernudóttir, Tómstunda- og félagsmálafræðingur