Vertu með! Vertu þú! Alþjóðlegi dagur iðjuþjálfunar 27. október
Updated: Oct 28, 2021
Ég er stoltur iðjuþjálfi!

Í dag þann 27. október er alþjóðalegi dagur iðjuþjálfunar og í tilefni þess langar mig að deila með ykkur hluta af öllu því frábæra starfi sem iðjuþjálfar veita og tengist valdeflingu, persónumiðaðri þjónustu og stuðningi til sjálfshjálpar.

- Iðjuþjálfar veita persónumiðaða þjónustu í samvinnu við skjólstæðinginn sem er við stjórnvöllinn í þjónustuferlinu. - Iðjuþjálfar veita stuðning og þjálfun til sjálfshjálpar og hafa það markmið að efla einstaklinginn í að takast á við hversdaginn og daglega iðju. - Iðjuþjálfar veita þjónustu út frá heildrænni sýn þar sem athyglin beinist ekki einungis að persónunni, færni og getu heldur einnig þeim áhrifum sem umhverfið og samfélagið hafa á viðkomandi einstakling. - Iðjuþjálfar leggja áherslu á að greina styrkleika þína og hæfileika sem geta hjálpað þér að finna lausnir á mögulegum iðjuvanda sem þú upplifir í daglegu lífi í gegnum athafnir eða umhverfið, hvort sem það tengist efnisheimi og þeim félagslega. - Iðjuþjálfar styðja einstaklinga í að finna trú á eigin getu þrátt fyrir breyttar aðstæður og ný hlutverk eða aðstoða hann við að endurheimta fyrri hlutverk ef mögulegt sem og að efla virkni og samfélagsþátttöku. - iðjuþjálfum finnst mikilvægt að styðja þig í að finna þína leið til að vera iðjusamur þátttakandi í samfélaginu á eigin forsendum, óháð aldri, reynslu, getu eða færni. - Iðjuþjálfar eru menntaðir innan bæði heilbrigðis- og félagsvísinda sem gefur þeim breiða sýn á aðstæður einstaklingsins, samfélagið og samspilið (tenginguna) sem á sér stað á milli einstaklingsins og umhverfisins hverju sinni. - Iðjuþjálfar búa yfir hafsjó af þekkingu og vinna markvisst að því að finna viðeigandi lausnir. - Iðjuþjálfar minna oft á verkfræðinga þegar þeir beita vísindalegum aðferðum og kenningum við að greina, meta og finna lausnir á mismunandi vanda tengt hreyfigetu og -færni, rökhugsun, skynfærum, taugaboðum, umhverfi, verkferlum, félagslegri þátttöku eða samskiptum. - Iðjuþjálfar aðhyllast þverfaglega teymisvinnu með hagsmuni skjólstæðingsins að leiðarljósi og í náinni samvinnu við hann.
#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #iðjuþjálfun #BelongBeYou #VertumeðVertuþú
