Kynlíf á efri árum er ekki tabú, kynlíf eftir sextugt - grein og námskeið
Það sem einkennir þó stóran hóp fólks á efri árum, sérstaklega elsta aldurshóp landsins er lítil umræða og fræðsla tengt kynlífi og kynheilsu þegar viðkomandi voru unglingar og ungmenni miðað við það aðgengi að upplýsingum sem ungt fólk hefur í dag. Það hefur vissulega ákveðna ókosti að vera ekki nægilega vel upplýstur um þessi málefni. Margir hafa þó nýtt sér tæknina síðustu ár til að sækja sér meiri þekkingu þar sem lítil þekking eykur hættuna á að einstaklingar missi af allri þeirri ánægju og vellíðan sem fylgir því að vera kynvera.
Opinská og heiðarleg umræða um heilbrigt kynlíf og kynheilsu verður til þess að auðveldara verður að aðlaga sig að breyttum þörfum og aðstæðum tengt þeim líkamlegu breytingum sem almennt fylgja breytingarskeiði kynjanna. Eins ef geta og löngun til að stunda kynlíf breytist vegna breytinga í blóðþrýstingi, út frá sjúkdómum, veikindum eða aukaverkunum frá nauðsynlegum lyfjum. Breytingarskeiðið hefur áhrif á líkamann og kynheilsu með ýmsum hætti og má stuttlega nefna þar mögulegan þurrk og eymsli í leggöngum og stinningarvanda. Það er þó ýmislegt sem hægt er að gera til að koma til móts við þessar breytingar með náttúrulegum hætti en einnig með lyfjum eða hjálpartækjum. Svo má ekki gleyma að húðin er stærsta líffæri líkamans og ætti að vera stór hluti af þeirri nánd sem á sér stað í kynlífinu ásamt heilanum sem stýrir hreyfingum líkamans og þar sem tilfinningar myndast. Húðin er stútfull af taugaendum enda aðal skynjunarlíffæri líkamans og því ætti snerting að vera grunnurinn í kynlífi til að njóta þess í stað þess að einblína eingöngu á kynfærin.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni með því að smella hér, Aldur er bara tala
Fyrir áhugasama þá verður 3ja vikna námskeið sem hefst 28. mars næstkomandi og fer fram í Lífsgæðasetrinu St. Jó í Hafnarfirði mánudaga milli kl. 14:15-15:45. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráning fer fram hér, Kynlíf og kynheilsa eftir sextugt fyrir fólk 60+
