top of page

Nýtt námskeið - Iðjulyklar að bættri heilsu

Updated: Oct 11, 2021

Hverjir eru þínir iðjulyklar í krefjandi aðstæðum? Er of mikið álag í þínu lífi og gengur erfiðlega að halda uppi mismunandi hlutverkum heima, í vinnu eða í félagsstarfi? Ertu orkulaus, úrvinda og streitan að fara með þig? Vantar þig verkfæri til að takast á við aðstæður? Þá gæti þetta námskeið hentað þér.


Á þessu námskeiði er kjarninn úr iðjuþjálfunarfræðum dreginn saman til að veita þátttakendum persónuleg bjargráð til að auka færni við daglega iðju og vinnu, félagslega þátttöku, draga úr streitu og hvetja til slökunar gegnum fræðslu og verklegar æfingar. Þátttakendur fá tækifæri til að máta sig við ólíka iðjulykla á námskeiðinu og yfirfæra þá sem henta yfir á sitt eigið líf.

Markmið námskeiðs er að styðja fólk á öllum aldri við að finna hvar jafnvægi þeirra liggur í daglegri iðju. Námskeiðið er ætlað þeim sem eru að upplifa mikið álag og streitu í daglegu lífi, eru að upplifa einkenni kulnunar eða hafa hætt á vinnumarkaði vegna heilsubrests. Það er mikilvægt að finna bjargráð sem henta hverjum og einum einstaklingi sem verkfæri til að takast á við krefjandi aðstæður. Einnig er lögð áhersla á að forgangsraða daglegri iðju út frá mikilvægi, huga að orkusparandi vinnuaðferðum til að tryggja heilsuvernd og að ná endurheimt í kjölfar áskorana. Þeir sem finna sína iðjulykla eru líklegri til að ná að efla líkamlega andlega og félagslega heilsu og þar af leiðandi ráða betur við aðstæður sem annars gætu reynst streituvaldandi.

Fyrir hverja er námskeiðið:

Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem vilja efla heilsuna með því að vera meðvitaðri um sín andlegu og líkamlegu mörk og öðlast þannig meira jafnvægi í daglegu lífi og iðju. Þessir þættir geta styrkt einstaklinga til að sinna þeim fjölþættu hlutverkum sem fylgja fjölskyldu og heimili, vera á vinnumarkaði og að taka félagslega þátt í samfélaginu. Námskeiðið hentar þeim sem eru að glíma við kulnun, hafa fengið covid, eru að glíma við andleg eða líkamleg veikindi og eru að vinna að því að ná aftur heilsu og endurheimt. Iðjulyklar eru bjargráð sem geta dregið úr líkum á heilsubresti síðar á lífsleiðinni.


Lýsing og markmið með námskeiði:

Námskeiðið samanstendur af fræðslu og verkefnum en í upphafi og lok námskeiðs eru þátttakendur boðaðir í viðtöl þar sem farið er yfir iðjusögu og persónuleg markmið sett fyrir komandi námskeið. Að námskeiðinu loknu eru þau markmið endurmetin með áherslu á yfirfærslu í daglegt líf.

Fyrirkomulag:

Námskeiðið stendur yfir fimm vikna tímabil með einstaklingsviðtölum í vikunni fyrir og eftir námskeið. Þátttakendur hittast sem hópur tvisvar í viku í 3 vikur í 2,5 klst í einu með pásu. Næsta námskeið hefst fimmtudaginn 11. nóvember kl. 10:15 og fer fram í Lífsgæðasetrinu St. Jó, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.


Hugmyndafræði:

Unnið er eftir hugmyndafræði iðjuþjálfunar (Model of Human Occupation), kenningum um reynslunám (Experiential learning), sjálfseflingu og samkennd (Self-compassion), tilfinningaleg og líkamleg þreyta (Compassion fatigue), tímastjórnun (Time Management), öndun (Breathing techniques), Samspil skynsviða (Sensory Integration) og Polyvagal kenningu (Polivagal theory).


Verð 69.500 kr. Innifalið í verði eru 6 námskeiðsdagar í 2,5 klst í senn, 2 einstaklingsviðtöl og léttar veitingar á meðan námskeiði stendur.

Ýmis stéttarfélög taka þátt í kostnaði námskeiðs fyrir félagsmenn sína.


Nánari upplýsingar veita Guðrún Jóhanna iðjuþjálfi á netfanginu gudrun@heimastyrkur.is og Harpa Ýr iðjuþjálfi á netfanginu harpa@idja.is

Smellið hér>>> til að skrá ykkur á námskeiðið.


25 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page