Iðjan að bera skólatösku
Nú styttist í að skólarnir hefjist að venju í seinnihluta ágúst. Þá mæta bæði nýnemar og eldri nemendur í skólana með skólatöskur á bakinu. Af gefnu tilefni langar mig að taka umræðuna um skólatöskur því alltof oft sé ég börn ganga um með alltof stóra tösku, berandi töskuna á annarri öxl eða taskan hangandi út yfir axlir, á upphandleggjum.

Eðlilega finnst mörgum ekki ástæða til að fjárfesta í dýrri skólatösku fyrstu skólaárin meðan börnin eru oft með lítið af hlutum sem þarf að bera milli heimilis og skóla. Oft eru það blaut sundföt sem vega þyngst þá daga sem þau fara í sund og mögulega íþróttaföt og skór þegar þau eru í inniíþróttum. Þessi fyrstu skólaár eru töskur því frekar valdar eftir útliti en eiginleikum, eru með flottum myndum eða í ákveðnum litum.

Það sem gleymist er að strax í upphafi skólagöngunnar byrja venjur og hefðir að mótast tengt skólastarfi og iðjuna að bera eitthvað á baki sér. Við þróum með okkur aðferðir og hegðun tengt umgengni við skólatösku og það sem í hana fer. Ef það er alltaf í hlutverki foreldris að raða í töskuna og setja hana á bak barnsins áður en það leggur af stað að heiman þá nær barnið ekki að þróa og þroska þá meðvitund sem er nauðsynleg tengt líkamsvernd og líkamsbeitingu. Það mun ekki huga að því hvort það raði því sem er þyngst í töskunni næst baki, staðsetningu tösku á bakinu eða af hverju það er mikilvægt að smella spennunni yfir bringuna sem hefur þann tilgang að jafna burðarþyngd á brjóstkassa og axlir. Spennan sem dregur úr óþarfa togi á axlir og minnkar hættuna á að við stingum höfðinu fram fyrir okkur og axlir til að auka burðargetuna eða höllum okkur yfir á aðra hliðina til að vega upp á móti þyngdinni sem er aðeins á annarri hlið líkamans þegar við berum töskur á annarri öxlinni í stað beggja.
Þið kannist kannski við þetta hjá sjálfum ykkur berandi þung veski, bakpoka, tölvutöskur, skiptitösku ungabarnsins eða innkaupapokana? Við sem höfum reynsluna t.d. foreldrar, ömmur og afar þurfum að vera góðar fyrirmyndir og styðja þau sem yngri eru, ef mögulegt, að tileinka sér snemma góðar venjur í góðri líkamsbeitingu svo það styðji þau vel alla ævi.
Það er mikilvægt að tileinka sér góðar venjur strax og það vita það allir sem hafa reynt að breyta einhverju í daglegri iðju að það er ekkert grín. Það reynist mörgum mjög erfitt að breyta venjum sem eru búnar að mótast, ómeðvitað, í einhver ár.
Það sama gildir fyrir börnin sem eru að feta sín fyrstu skref í að bera eitthvað á bakinu. Það besta er að þau fá einstakt tækifæri til að æfa sig með mikilli vinnuvernd þar sem lítil þyngd er í töskunum fyrstu skólaárin en svo bætist við þyngdina með hverju árinu og þá er mikilvægt að hafa tileinkað sér góðar venjur strax frá upphafi. Bakið mun þakka fyrir sig og vera líklegra til að vera án verkja ef vandað er vel til verka.

Veljið skólatöskur sem eru í samræmi við stærð barnsins, með breiðum og bólstruðum axlarólum, með smellu yfir bringuna og helst með formaðan stuðning við bakið að innanverðu. Stillið töskuna þannig að hún liggi vel upp að baki barnsins miðað við þá yfirflík sem það er í hverju sinni og passið að taskan hvíli sem mest á mjóbaki barnsins, ekki á rassinum. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um skólatöskur barna inn á heimasíðu Iðjuþjálfafélags Íslands.

#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #heilsan #góðarvenjur #vinnuvernd #líkamsbeiting #töskur
https://www.ii.is/.../efni-a.../Skolatoskudagabaeklingur.pdf