Handstyrkur jókst um 7 kg á aðeins 2 mánuðum gegnum ólíka iðju og handaþjálfun
Ung kona með mjög skertan styrk og færni í ríkjandi hlið líkamans í kjölfar heilablóðfall á fyrri hluta árs 2021 hafði samband við mig í vor upp á að komast í iðjuþjálfun. Hún hafði verið í sjúkraþjálfun í ár frá því hún útskrifaðist af Grensás á síðasta ári en ekki haft aðgengi að iðjuþjálfun því það starfar enginn iðjuþjálfi í hennar bæjarfélagi. Henni hafði verið bent á fjarþjálfunina sem ég veiti á skjá og því hófst samstarfið okkar.
Á þeim stutta tíma sem samstarf okkar hefur staðið yfir þá hefur færni hennar og styrkur í hendinni farið töluvert fram við ýmsa iðju. Hún hefur náð að tileinka sér nýtt viðhorf gagnvart sér og færni sinni við iðju og gegnum mikla seiglu, ákveðni og elju náð að auka handstyrkinn um 7 kg á aðeins rúmum 2 mánuðum sem telst framúrskarandi árangur.
Þessi árangur náðist með því einu að bæta iðjuþjálfun og handaæfingum við hæfi, sem við höfum breytt og aðlagað eftir þörfum á þessum tíma, til viðbótar við það sem hún var að gera fyrir í sjúkraþjálfuninni. Mikilvæg iðja sem hefur verið ógerleg síðastliðið ár er nú loksins aftur gerleg og náði hún þeim stóra og mikla sigri að prjóna aftur. Hún gerði sér lítið og prjónaði heila peysu en það hefur ekki verið mögulegt fyrr en núna. Hún er strax byrjuð að prjóna aðra peysu til viðbótar þar sem þetta er mjög mikilvæg iðja fyrir hana sem gefur henni mikla hugarró.
Ég er eðlilega afar stolt af þeim mikla árangri sem hún hefur náð gegnum samstarfið okkar enda er þessi árangur algjörlega til fyrirmyndar og hún heldur ótrauð áfram að sinna nýrri iðju með hendinni.

*Mynd eftir Dr. Emily Balog sem prýðir forsíðu nýjasta tölublaðsins af The Open Journal of Occupational Therapy (OJOT).
#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #iðja #iðjuþjálfun #handaþjálfun #æfingar #þjálfunviðhæfi #árangur #seigla #kraftur