top of page

Gildi markmiðasetningar

Updated: May 16, 2021

Í iðjuþjálfun er alltaf leitast eftir að setja upp markmið fyrir þeirri þjálfun sem á að fara fram. Það gefur innsýn í hvaða árangri á að ná (sýnileiki), með hvaða hætti (aðferð), yfir hvaða tímabil þjálfunin á að standa yfir (tímalengd), hvenær og hvar þjálfunin mun fara fram (staður og tími), hvaða áfangar ættu að nást yfir tímabilið (mælikvarðar) og vera eitthvað sem viðkomandi langar virkilega að ná (mikilvægt og aðlaðandi).


Í síðustu viku tókst mér að ná markmiði sem hefur tekið mig langan tíma en skipti mig miklu máli. Ég er ein af þeim sem er í O- blóðflokknum sem hægt er að gefa öllum óháð blóðflokknum þeirra en ég er lág í járni og hef alltaf verið (ættgengt). Ég er því ekki æskilegur blóðgjafi þrátt fyrir að langa virkilega að vera það. Ég komst að járnskortinum seint á síðustu öld þegar ég reyndi að fara í mína fyrstu blóðgjöf og var hafnað. Í febrúar 2020 ákvað ég að reyna aftur en aftur var mér hafnað og sama gerðist aftur í ágúst 2020. Það var þá, þegar ég var send heim með járntöflur, sem það kviknaði gríðarlegur hvati innra með mér að nú skyldi mér takast að ná upp járnbirgðum á næstu 6 mánuðum. Í samráði við heimilislækninn minn og með breyttu mataræði ásamt járntöflunum tókst það loksins og fór ég í fyrstu blóðgjöfina mína, vonandi sú fyrsta af mörgum, miðvikudaginn 17. mars 2021. Meir en 12 árum eftir að ég reyndi það í fyrsta skipti. Svona áfangi sannar það fyrir mér enn og aftur, ef að markmið er skýrt, mælanlegt, aðlaðandi, raunhæft og tímasett hjá þeim sem setur sér það þá aukast líkurnar gríðarlega að það verði að veruleika.


Það er ekkert leyndarmál að þetta markmið skipti mig það miklu máli að ég táraðist af gleði og hamingju þegar mér barst sms frá Blóðbankanum 16. mars með boði um að koma í blóðgjöf. Þessi sæti sigur kveikti líka hvata innra með mér til að setja mér nýtt markmið. Markmið sem ég hef fram að þessu talið ógerlegt en trúi nú að ég ætti að geta náð ef ég set það upp með skýrum hætti.


#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #markmiðasetning #persónulegursigur #hamingja #hvatning #gleði #hvati #nýttmarkmið



8 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page