Börn, fullorðnir og náttúran 🌱
Mörg okkar sem eldri eru munum eftir heilu sumrunum sem við vorum úti langt fram eftir björtum sumarkvöldum að leika okkur. Það var oft erfitt að koma sér heim í ró og svefn því það var svo gaman. Fullt af börnum njóta þess enn í dag og nýta hvert tækifæri til að leika sér úti í náttúrunni. Þá er ekkert endilega verið að vísa í boltaleiki, hjólaleiki eða hópleiki heldur leiki þar sem legið er í grasinu og horft á skýin mynda furðuverur, leyft vindinum að kitla kinnarnar eða fylgst með norðurljósunum dansa um himininn.
Þegar það kemur að útivist barna þá er mikilvægt að við, foreldrar og umsjónaraðilar, ýtum undir forvitni barnanna í náttúrunni sem leið til að auka áhuga þeirra til að vera þar. Það gerum við með því að vera með þeim í náttúrunni og spyrja t.d. hvort þau viti hvað plönturnar eða dýrin heiti sem við sjáum í göngutúrnum. Við ræðum við börnin hvað dýrin mögulega borði, hvað þau séu að gera eða fara án þess að gefa þeim svörin. Samtalið gengur einungis út á vangaveltur þar sem það getur kveikt áhuga þeirra að velta þessu fyrir sér. Auk þess er náttúran dásamlegur staður til að styrkja hreyfifærni okkar og alltaf hollt að horfa á heiminn á hvolfi öðru hvoru. Skynfærin okkar fá vítamín bætta næringu úr öllum áttum og hugurinn frí frá öllu áreitinu sem getur fylgt heimili, skóla og vinnustað. Það mætti því segja að náttúruferð einu sinni á dag kemur skapinu í lag.

Nýtum tækifærin í náttúrunni í grennd við heimilið, garðinn, leiksvæði eða næsta útivistarsvæði. Best er ef einfaldleikinn fær að stýra för því einfaldleiki náttúrunnar er svo heillandi og hún einstök. Hægt er að samtvinna snjallsíma og tækni við útivistina ef það reynist erfitt að sleppa takinu af þeim tækjum til að rannsaka heiminn enda ýmis forrit til nú þegar til þess.

Nú styttist óðum í dásamlega berjatímabilið sem gefur okkur fullt af tækifærum til að skoða fallegar köngulær, plöntur, fugla, orma, skýin, kletta, steina og svo mætti lengi telja á meðan við týnum safarík ber í fötur eða upp í munn og ofan í maga
#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #iðjuþjálfun #náttúran #útivist #skynfæri #hreyfing #samvera #samskipti #vellíðan #dýralíf