Andlegt ofbeldi, alkóhólismi og meðvirkni
Updated: Oct 29, 2021
Vertu með. Vertu þú. - þetta var þema alþjóðlega dags iðjuþjálfunar í ár sem var í gær þann 27. október og var hvatning mín að þessum hugleiðingum tengt starfi mínu sem iðjuþjálfi með fólki með ýmsar áskoranir í lífinu. Eftirfarandi pistill mun fjalla um andlegt ofbeldi, alkóhólisma og meðvirkni.

Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir. Innan fjölskyldna þar sem annað eða báðir foreldrar eru alkar eða mikil veikinda eru, ríkir oft mikil meðvirkni. Samskiptin geta verið þrúguð og markaleysið mikið í því sem er sagt og gert, líka þótt börn þessara einstaklinga séu komin á fullorðinsár.
Ég hef unnið með mörgum brotnum einstaklingum sem hafa alist upp við slíkar aðstæður. Þar sem "kærleikurinn" er húðaður utan um skilyrði og skylduverk, engum til góða. Börnin alast upp og verða fullorðnir einstaklingar mörg hver með skerta sjálfsmynd og litla trú á eigin getu eftir að hafa verið ítrekað brotin niður andlega með ljótum orðum eða gjörðum.
Fullorðin hitti ég þau kvíðin, óörugg, setja þarfir annarra fram fyrir eigin þarfir og eiga mjög erfitt með að setja sig í fyrsta sæti í eigin lífi því þau hafa verið alin upp við það að sá veiki, alkinn, aðilinn sem allir í fjölskyldunni "dansa" í kringum er sá sem er og á ávalt að vera í forgangi á meðan hinir læðast með veggjum til að halda friðinn.
Þó nokkrir hafa náð að byggja upp hugrekki, seiglu og sjálfsmynd, eftir langa og krefjandi sjálfsvinnu, að setja mörk og stíga út úr aðstæðunum. Það hefur verið þeim öllum mikil áskorun að svo mörgu leyti því þau eru ekki aðeins að standa upp fyrir sjálfum sér og sínu virði heldur þurfa þau oft að missa dýrmæta ástvini í leiðinni sem eru enn týndir í þoku meðvirkninnar og sjá ekki heildarmyndina. Ástvini sem þekkja ekki eðlileg og nærandi samskipti, stuðning og kærleikann í regnbogans litum. Þetta er krefjandi ferli en vitandi að reynslan hefur sýnt það og margsannað að ekkert mun breytast í óbreyttum aðstæðum, hegðun og samskiptum fjölskyldunnar, þá er það nauðsyn eins og sjálft súrefnið.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að setja mörk og setja sig í fyrsta sæti heyri ég marga lýsa miklum létti, gleði og þakklæti. Það skiptir engu á hvaða aldri þau hafa verið, þau deila öll þeirri upplifun að þetta var besta skrefið fyrir þau þótt það hafi líka verið það erfiðasta og þyngsta skref sem þau hafa stigið. Þessir einstaklingar eru ungmenni, fullorðnir og eldri borgarar og það líður aldrei meir en heil vika á milli þess sem ég hitti einstaklinga sem eru ýmist enn fastir eða hafa náð losa sig við fjötra meðvirkninnar, svo algengt er þetta fyrirbæri. Þessir aðilar geta verið ég, þú eða einhver í kringum okkur og því ávalt mikilvægt að sýna aðgát í nærveru sálar. Við vitum aldrei hver það er í kringum okkur sem er að taka skrefið eða hefur tekið það og sá er ekki í þörf fyrir meira mótlæti.
Við eigum aðeins eitt líf, njótum alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða og gefa með því að setja okkur í fyrsta sæti og vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Við fáum það einstaka tækifæri í lífinu að velja þá sem við viljum hafa í kringum okkur, veljum þá sem láta okkur líða vel, hvetja okkur áfram og eru til staðar fyrir okkur skilyrðislaust. Við eigum það skilið, vertu þú ❤️
#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #iðjuþjálfun #meðvirkni #vertuviðstjórnvölinn #vertuþú