top of page

Árangur næst með þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við hæfi í iðjuþjálfun

Áskoranir geta oft virst óyfirstíganlegar en með réttum stuðningi, ráðgjöf og þjálfun verða þær viðráðanlegar.


Í júlí 2022 sagði ég ykkur frá ungri konu sem býr út á landi sem hafði samband við Heimastyrk til að fá þjálfun. Hún hafði fengið heilablóðfall rúmu ári áður og misst styrk og hreyfigetu öðrum megin í líkamanum. Hún var búin að vera í sjúkraþjálfun í að verða ár í sínu bæjarfélagi eftir að hún útskrifaðist á Grensás en ekki náð góðri færni aftur í aðra hendina sem hafði neikvæð áhrif á getu hennar við að sinna t.d. sjálfri sér, heimili og vinnu.


Við höfum hist á skjánum í fjarþjálfun reglulega til að meta færni í höndum, hreyfigetu, styrk og færni við ýmsa iðju. Í hvert sinn er æfingum breytt í takt við aukna færni.Á aðeins 8 mánuðum hefur handstyrkur tvöfaldast. Liðleiki í hendi og fingrum einnig aukist og er orðinn ca 85-90% sem er gríðarlegur ávinningur frá því áður en iðjuþjálfunin hófst. Hún er ákveðin í að ná aftur fyrri færni og sinnir markvisst iðjuþjálfun samhliða sjúkraþjálfun. Á aðeins 3 mánuðum er hún farin að geta t.d. klætt sig aftur með báðum höndum sem hún gat ekki í ágúst, skrifað á lyklaborð með báðum höndum, skorið grænmeti með báðum höndum, pakkað inn jólagjöfum og svo margt fleira.


Fyrir okkur sem gerum þessa iðju daglega án þess að hugsa um það er þetta sjálfsagður hlutur en fyrir þá sem missa niður mikinn styrk og liðleika t.d. eftir heilablóðfall er þetta ekki sjálfsögð iðja.


Við uppfærðum æfingaráætlunina í síðasta tíma og þá er mjög mikilvægt að geta litið yfir þessa mánuði og sjá hversu mikill árangur hefur náðst við marga iðju. Það er drifkrafturinn í að takast á við nýju verkefnin, æfingarnar og iðjuna sem er enn erfið og krefjandi að framkvæma því það átti líka við um allar hinar iðjurnar sem hún gerir núna án þess að hugsa um það. Þegar hún kom í fyrsta tímann á síðasta ári þá hafði hún misst færnina við að prjóna og var það eitt af fyrstu markmiðunum hennar að ná aftur þeirri færni og náði því á aðeins 2 mánuðum og á síðustu 6 mánuðum þá hafa margar peysur til viðbótar orðið til á prjónunum hennar sem hefur aukið lífsgæðin mikið.


Sjá fyrri færslur á facebook síðu Heimastyrks https://www.facebook.com/idjuthjalfi/


#heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #færni #styrkur #liðleiki #hendur #iðja

17 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page