Áhrif iðju á sjálfstraust og líðan
Ég deili hér pistli frá 2019 því síðustu tvö ár hefur hann bakað alveg sjálfur fyrir afmælin sín. Það er gaman að sjá hvernig þátttakan hans í undirbúningi afmælanna sinna síðustu ár sem barn kveikti áhuga hans á að yfirtaka alveg baksturinn á afmæliskökunni og undirbúning. Margt smátt gerir eitt stórt.

Pistill frá 2019: Yngri strákurinn minn átti afmæli um síðustu helgi og vildi bjóða fjölskyldunni í átta ára afmælið sitt. Þrátt fyrir ungan aldur þá finnst mér mikilvægt að kenna honum hvað felst í því að halda afmæli. Það er skipulag, undirbúning og frágang. Ég er alls ekki að tala um að kenna honum hvað hlutirnir kosti, bara það að maður þarf að ákveða og búa til það sem á að vera í boði í veislunni, taka til og ganga frá. Við ákváðum því í sameiningu hvað ætti að vera í boði af veitingum því þetta var hans veisla. Hann sá um að baka afmæliskökuna og skreyta ásamt því að búa til kókoskúlur. Hann hjálpaði líka við að taka til og skreyta með því að blása upp blöðrur.
Ástæðan fyrir því að mér fannst mikilvægt að hann tæki þátt er sú að það kennir honum bera ábyrgð, að hafa yfirsýn, þurfa að skipuleggja sig (innan vissra marka enda mjög auðveld verkefni með stuðningi), undirbúning, frágang og að hlutirnir gerist ekki sjálfkrafa og án fyrirhafnar. Þetta var einstaklega góð reynsla fyrir hann því einn ungur frændi elskaði kökuna hans og kókoskúlurnar runnu upp í munn og ofan í maga gesta. Það er mikilvægt að passa hversu mikil ábyrgð er sett í hendur ungra barna, með hvaða hætti og ávalt með stuðningi en ég treysti á að hann búi nú að ákveðinni þekkingu og reynslu hvað felst í því að halda veislu og hann geti tekið enn meiri þátt í skipulagi og undirbúningi næsta afmælis.
Tökum ekki tækifærin af börnunum til að læra, þroskast og eflast. Þetta er allt hluti af því að læra að stýra tilfinningum, efla hreyfigetu og fínhreyfingar, rökhugsun og margt fleira jákvætt.


#iðjuþjálfun #heimastyrkur #guðrúnjóhannaiðjuþjálfi #þroskaferli #ábyrgð #sjálfstraust #vellíðan #iðja