Börn, unglingar og skynúrvinnsla

Börn, unglingar og skynúrvinnsla

 

Iðjuþjálfar aðstoða þá sem eiga í vanda með athafnir daglegs lífs eða eru í áhættu fyrir að þróa með sér slíkan vanda og á það ekki síður við um börn og unglinga sem eru á því mikilvæga lífsskeiði að læra t.d. að hreyfa sig, tjá sig og eiga samskipti við aðra, skilja og stjórna eigin líðan, að verða sjálfbjarga og sjálfráða. Þjónustuferlið felur í sér mat á færni og getu barns/unglings, meðhöndlun og þjálfun þar sem notast er við hjálpartæki ef þess þarf og eins eru kenndar aðferðir til að fyrirbyggja mögulegan vanda sem barnið/unglingurinn gæti verið að þróa.

 

Markmið þjónustunnar er að mynda samræmi milli þeirra eiginleika sem barnið/unglingurinn býr að, athafnarinnar og umhverfisins með það að leiðarljósi að barnið geti tekið þátt og verið eins mikið sjálfbjarga og mögulegt er hverju sinni.

 

Þjónustan fer fram með því að meta færni, getu, styrkleika og veikleika hjá barninu/unglingnum í gegnum samskipti og mögulega samveru með barninu/unglingnum og foreldrum/forráðamanni í daglegu umhverfi barnsins/unglingsins. Út frá þeim upplýsingum er vandinn skilgreindur og markmið þjónustuferlisins sett í samvinnu við barn/ungling og foreldra/forráðamann og mögulega starfsmenn leikskóla, skóla eða frístundaheimila ef það á við.

 

Oftast er notast við iðju, hreyfingu og leik í þjálfun barna þar sem það veitir tækifæri á afslöppuðum og skemmtilegum samskiptum og hreyfingum sem hafa það markmið að veita skynfærum barnsins/unglingsins hæfilegt áreiti til að efla getu og færni t.d. hreyfingar, líkamsstyrk, samskiptafærni eða samhæfingu handa og augna.

 

Þjónusta við börn og unglinga getur einnig verið ráðgjöf og stuðningur við foreldra sem vilja rjúfa neikvætt samskipta- og hegðunarmynstur.